Efniviður: Furuköngull eða könglar.
Valkvæmt: Málning eða annað skraut.

Furukönglar eru til margs nytsamlegir og eru sérstaklega falleg náttúruafurð. Þó að hér séu nefndir furukönglar er auðvitað hægt að nota aðra köngla, en furukönglar eru skemmtilegir í laginu og nokkuð stöðugir. Þar sem furukönglar detta af á mismunandi tímum ársins eftir tegund má oftast finna þá árið um kring.

Ef könglarnir eru stöðugir er myndastandurinn svo gott sem tilbúin. En toppurinn á könglinum er yfirleitt klofinn svo þar er fullkomið að koma fyrir mynd. Ef hann er ekki stöðugur má setja kennaratyggjó undir, eða líma lítin trjábút eða pappa undir. Einnig ef toppurinn er ekki klofinn er nóg að kljúfa hann aðeins með hníf eða skærum.

Hægt er að láta könglana standa eins og þeir koma úr náttúrunni, brúnir og fallegir eða notað málningu og málað köngulinn allan eða bara endana á „blöðunum“.

Hægt er að nota standinn fyrir ýmislegt annað en bara myndir t.d. má mála hann í jólalitum og nota fyrir jólakort. Hægt er að mála hann með björtum litum og nota hann sem sætamerkingu í afmæli eða brúðkaupi. Ef þú vilt fríska upp á skrifstofuna með náttúrulegu skrauti, geturðu sett nafnspjaldið þitt á standinn. Svo er um að gera að nota hugmyndaflugið.

Birt:
29. júlí 2014
Höfundur:
Vala Smáradóttir
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Vala Smáradóttir „Furuköngla myndastandur“, Náttúran.is: 29. júlí 2014 URL: http://static.natturan.is/d/2014/07/29/furukongla-myndastandur/ [Skoðað:10. desember 2018]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 22. ágúst 2014

Skilaboð: