Fjöllin hafa ætíð heillað mannkynið. Í trúarritum gegna fjöll oft heilögu hlutverki. Þau eru staður þar sem himinn og jörð mætast og það er ótrúlega gaman og heillandi að ganga á fjöll.

Veröld fjalla er heil veröld út af fyrir sig. Þau eru yfirleitt ósnortin náttúra. Þar liggja einungis stígar og gönguleiðir. Dæmi um gönguleið sem gaman er að ganga á Íslandi um fjöll og firnindi er Laugavegurinn sem liggur frá Landmannalaugum og Hrafntinnuskeri alla leið niður í Húsadal í Þórsmörk.

Segja má að hverjum finnist sitt fjall fagurt, og allir eiga sín uppáhaldsfjöll. Bæði eru til stök fjöll eins og Herðubreið en síðan eru til stórir fellingafjalla-fjallgarðar á Jörðinni eins og Himalajafjöllin. Á Íslandi eru ekki fellingafjöll heldur hafa öll Íslensk fjöll myndast við eldvirkni einhvers konar.

Það góða við fjöllin er að þau eru alltaf á sínum stað. Þessvegna ætti að vera auðvelt að læra hvað þau heita og auðvelt að kynnast þeim betur í gönguferðum um fjöll og firnindi.

Fjall er landform sem rís yfir landið í kring og hefur yfirleitt myndast annað hvort við flekahreyfingar eða eldgos. Fjall er yfirleitt hærra og brattara en hæð. Oft fer það eftir málvenju á hverjum stað hvað er kallað fjall, sbr. „Himmelbjerget“ í Danmörku. Skilgreiningar á fjöllum eru mismunandi og ekki er til nein viðurkennd stöðluð skilgreining á þessu náttúrufyrirbæri. Dæmi um fjall á Íslandi er Snæfellsjökull.

Fellingafjöll eru fjöll mynduð við árekstur jarðskorpufleka jarðar. Dæmi um fellingafjöll eru Himalayafjöll og Alpafjöllin.

Eyfjall/klettur er stakt fjall úr hörðu bergi sem stendur eitt eftir þegar rof og veðrun hafa unnið sitt verk á svæðinu.

Misgengisfjall er fjall sem myndast þegar jarðskorpan brotnar upp vegna sprunguhreyfinga sem valda miklum lóðréttum færslum. Upplyft svæði kallast rishryggur en dalirnir inn á milli kallast sigdalir. Dæmi um slíkar jarðmyndanir er á Þingvöllum.

Eldfjall er 1. op á jarðskorpunni þar sem hraun gös og gjóska streymir út. 2. Eldfjall er fjall sem hefur byggst upp af hraunlögum og gjósku við eldgos. Dæmi Hekla eða Vesuvíusfjall. Einnig eru til eldfjöll á öðrum reikistjörnum, eins og Olympusfjall á Mars sem er stærsta fjall sólkerfisins.

Ofureldfjall er eldfjall sem gosið hefur meiru en 1.000 km3 af gjósku í einu gosi. Talið er að Toba askjan á norðanverðri Súmötru hafi myndast slíku gosi fyrir 67.000 - 75.000 árum. Í öskjunni er nú stöðuvatn — 100 km langt, 30 km breitt og 505 m djúpt þar sem það er dýpst. Vatnið er talið stærst allra öskjuvatna á jörðinni. Yellowstone askjan er einnig talin hafa myndast í álíka gosi fyrir 600.000 árum.

Kökueldfjall er eldfjall á Venus sem hefur líklega myndast í einu löngu gosi við mjög þykkt hraunrennsli kísilríks hrauns. Eldfjöll þessi eru nánast hringlaga slétt að ofan með mjög brattar hlíðar.

Dyngja er eldfjall sem hefur myndast í einu löngu gosi úr þunnfljótandi kísilsnauðu basalthrauni. Dæmi um dyngjur á Íslandi er Skjaldbreiður.

Askja er kringlótt sigdæld sem myndast þegar kvikuhólf tæmist. Dæmi um öskju er eldfjallið Askja á Íslandi. 

Sprengidyngja er óvenjuleg tegund dyngju sem myndast hefur í miklu sprengjugosi. Í slíkum dyngjum er oft að finna flikruberg. Sem dæmi má nefna hæsta fjallið í Sahara – Emi Koussi fjall.

Gosop á sprungu er sprungusveimur þar sem eldgos á sér stað yfirleitt án allrar sprengivirkni. Dæmi um slíkt eldfjall hér á Íslandi eru Vatnafjöll.

Gjallgígur er brattur reglulegur gígur úr gjalli sem myndast úr grófu efni sem fellur úr gosmekkinum eða þeytist upp úr gígnum.

Eldfjall undir jökli er eldfjall sem myndast hefur við eldgos undir jökli eða ísskildi. Dæmi um slík eldgos á Íslandi eru myndanir móbergsstapa eins og t.d. myndun Herðubreiðs.

Freraeldfjall er eldfjall úr ís sem myndast hefur á freðnum tunglum sólkerfisins. Í stað þess að gjósa fljótandi kviku gjósa þessi eldfjöll fljótandi efnum eða jafnvel gufum eins og vatni, ammóníum og metani. Eftir hvert gos frjósa gosgufurnar og vökvarnir og mynda „hraun" vegna hins lága umhverfishitastigs.

Kvikustöpull er nánast hringlaga stöpull sem hefur myndast vegna langvinns goss af yfirleitt súrri kviku úr eldfjalli.

Birt:
30. apríl 2014
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Fjall“, Náttúran.is: 30. apríl 2014 URL: http://static.natturan.is/d/2014/04/30/fjall/ [Skoðað:25. mars 2019]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 2. júní 2014

Skilaboð: