Grunnvatn kallast það vatn sem eru undir yfirborði jarðar í holrými í bergi og í sprungum. Grunnvatn myndar svokallaða vatnsveita (aquifers) og það getur fossað fram í lækjum og uppsprettum. Grunnvatnið getur verið nokkurra þúsund ára gamalt og það hreinsast yfirleitt vel á leið sinni í gegnum hraun og setlög sem virka eins og mengunarsíur. Grunnvatn er oft kalt og hressandi þótt hlýtt sé í veðri enda er hitastig þess mun jafnara en yfirborðsvatns.

Þótt við Íslendingar séum svo lánsamir að eiga nóg af vatni þá er óþarfi að bruðla með það. Betra er að venja sig á að nýta það vel, enda er orkufrekt að dæla vatni til okkar og frá okkur aftur. Vatnsnotkun heimila er mismunandi milli landa. Sameinuðu þjóðirnar áætla að 50 l af hreinu vatni á dag sé viðunandi magn fyrir hverja manneskju. Á heimili fjögurra manna íslenskrar fjölskyldu notar hver einstaklingur um 210 l af köldu vatni á dag, í Svíþjóð um 215 l á dag og í Bandaríkjunum er talan 450 l.

Í mörgum þróunarríkjum má rekja um 70% sjúkdóma til vatns sem er mengað af bakteríum, vírusum og sníkjudýrum. Alþjóða heilbrigðisstofnunin telur hins vegar að um 70% sjúkdóma sem hrjáir fólk í iðnríkjum megi rekja til langtímaáhrifa mengunarefna í vatni, í lágum styrk.

Megináskorun framtíðarinnar er því ekki eingöngu að sjá íbúum jarðar fyrir vatni heldur fyrir hreinu vatni.

Þar sem grunnvatn er í snertingu við innskot eða kvikuhólf undir virkum eldfjöllum myndast oft jarðhiti. Einnig er hitastigull í jörðinni sem þýðir að það verður heitara eftir því sem neðar er komið í jarðskorpunni. Á jarhitasvæðum er hitastigullinn óvenjulega hár.
 
Jarðhitanum er skipt í háhitasvæði þar sem einungis gufa kemur upp á yfirborðið eins og við Kröflu og lághitasvæði þar sem heitt vatn er meiraáberandi eins við laugar, eins og í Laugardal í Reykjavík.
 
Alls kyns jarðhitaummyndanir, leirmyndanir og falleg litbrigði eru mest áberandi á háhitasvæðunum og eru þau jafnan vinsælustu ferðamannasvæðin eins og við Geysi og í Krýsuvík.
 
Jarðhitavirkjanir virkja það varmaflæði og þá heitu gufu sem er að finna á háhitasvæðum. Jarðhitavinnsla er almennt námavinnsla þar sem vatni er dælt hraðar upp úr jarðhitageyminum, en það endurnýjast. Það er einungis þegar vatni er dælt aftur niður í jarðhitageyminn að hægt er að segja að um nokkuð sjálfbæra vinnslu sé að ræða. En jafnvel í slíkum tilvikum næst ekki full sjálfbærni þar sem ekki er hægt að tryggja aðallt vatnið sem dælt er niður skili sér aftur
yfir á jarðhitasvæðið sjálft.
 
Gífurleg vandamál hafa skapast vegna loftmengunar frá jarðhitavirkjunum. Ljóst er að langtímaáhrif jarðhitavirkjana bæði á fólk og lífríki hafa lítið verið könnuð en tæring vegna efna sem eru í jarðhitagufu getur verið umtalsverð. Verið er að gera tilraunir uppi á Hellisheiði með hreinsun loftmengunar frá jarðhitavirkjunum þar sem reynt er að fanga brennisteinsvetni og dæla því niður í jarðlög.Er vonandi að þær tilraunir skiliárangri.

Birt:
30. apríl 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir, Varis Bokalders og Maria Block „Grunnvatn“, Náttúran.is: 30. apríl 2014 URL: http://static.natturan.is/d/2014/04/30/grunnvatn/ [Skoðað:25. mars 2019]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 9. júní 2014

Skilaboð: