RauðrófurÞað er sagt að klukkustund í garðinum á dag sé tíminn sem þarf til að sinna honum og ég held þetta sé satt. Vegna veðurlagsins virkar þetta þó ekki svona. Vinnan dreifist ekki jafnt. Margir dagar henta ekki til útivinnu en aðra daga slítur maður sig ekki frá garðinum. Svo má aðskilja það sem kallast getur vinna frá því sem ég vildi skilgreina sem eftirlit eða öllu fremur samvistir við plönturnar. Það þarf ekki að tala við þær beint en þær vaxa betur ef við lítum eftir þeim og veitum þeim athygli. Blómkál og hvítkál vill áburðarvatn einhvern tímann á sumrinu. Salat og grænkál vill láta snyrta sig til að geta haldið áfram að vaxa fram á haustið. Plönturnar eru þakklátar ef veikir einstaklingar og sölnuð lauf eru tekin burt og þær vilja gefa af sér eða með sér, fegnar sumar ef stóru blöðunum er létt af þeim svo þær geti sett kraft í þau minni. Þær heyra ef talað er vel um þær.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur.

Ljósmynd: Rauðrófur, ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
2. ágúst 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Hvað á að segja við plönturnar?“, Náttúran.is: 2. ágúst 2014 URL: http://static.natturan.is/d/2007/11/09/hva-segja-vi-plnturnar/ [Skoðað:18. mars 2019]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 9. nóvember 2007
breytt: 2. ágúst 2014

Skilaboð: