Hvað eru umhverfisviðmið?

Umhverfisviðmið eða markmið eru í eðli sínu ekkert frábrugðin fjárhagslegum markmiðum. Hlutverk beggja er að mæla árangur af starfssemi fyrirtækisins á mismunandi sviðum, þó svo að auðveldlega sé hægt að fullyrða að fjárhagleg og umhverfismarkmið séu hvert öðru háð. Það er þó einn grundvallarmunur á fjárhaglegum og umhverfislegum markmiðum. Hin fjárhagslegu hafa þróast í fjölda áratuga eða árhundruði meðan umhverfislegu markmiðin eru tiltölulega ný á nálinni og fyrirtæki byrjuðu ekki að setja umhverfisviðmið í einhverjum mæli fyrr en eftir 1996 þegar ISO 14001 staðallinn var fyrst samþykkur.

Þessi grundvallarmunur á umhverfis- og fjárhagslegum markmiðum hefur hins vegar mikla praktíska þýðingu. Bókhaldsforrit fyrirtækja miðast að því að fylgjast á auðveldan máta með fjárhagslegum lykiltölum. Kerfin eru byggð með það í huga að geta á auðveldan og fljótan máta fá út allar helstu fjárhagslegu viðmið sem hægt er þar sem upplýsingar skipta öllu í hörðum heimi samkeppninnar. Umhverfisupplýsingar eru ekki á innbyggðar í upplýsingakerfi fyrirtækja eins og fjárhagslegar upplýsingar.

Að skilgreina umhverfismarkmið er í sjálfu sér ekki erfitt. Hið flókna er að skilgreina hvar og hvernig auðveldast er að safna saman upplýsingum úr upplýsingakerfinu. Þar sem umhverfisupplýsingar eru oft af skornum skammti hefur fólk því tilhneigingu að mæla það sem hægt er að mæla í stað þess að mæla það sem er mikilvægt. Grunnur að öllum viðmiðum er að þekkja núverandi stöðu (grunnstöðuna) áður en viðmiðin eru sett. Án þess að þekkja grunnstöðuna er afskaplega erfitt að vita hvort markmiðum hafi verið náð. Að ekki vita grunnstöðuna er líklega algengustu mistök sem fyrirtæki gera við markmiðasetningu. Markmiðin verða því oft ekkert annað en fallegur ásetningur án þess að hægt sé að segja til um hvort þeim hafi verið náð eða ekki. Grundvallaratriðið í allri markmiðasetningu er því að skilgreina grunnstöðu áður en markmið eru sett.

Einkenni góðra umhverfisviðmiða:

Góð viðmið þurfa að uppfylla nokkur einföld skilyrði: Eru mælanleg.
Umhverfisskilyrði þurfa ekki nauðsynlega að vera töluleg en þau verða að vera mælanleg, þ.e að það þarf að vera ljóst hvenær markmiðinu er náð. Dæmi um mælanlegt markmið sem er ekki tölulegt er að allir starfsmenn eiga að hljóta 4 tíma grunnmenntunar í umhverfismálum á næstu 12 mánuðum. Þetta er ekki tölulegt markmið en það er ljóst að markmiðinu hefur verið náð ef allir starfsmenn hafa fengið grunnumhverfisfræðslu innan 12 mánaða.

Hafa grunnviðmið og tímaramma: Skilyrði verða að hafa þekktan grunn sem þau byggja á. Markmið um að lækka eldsneytisnotkun um 5% segir í raun ekkert. Þetta markmið tilgreinir ekki hver er grunntalan né heldur hvenær ná á markmiðinu, þ.e. á næsta ári eða næstu 10 árum. Betra væri að hafa markmið sem segði að minnka eigi eldsneytisnotkun farartækja um 5% á árinu 2009 samanborði við 2007.

Eru afmörkuð og með skilgreinda mæliaðferð: Þegar markmið eru sett er einnig mikilvægt að skilgreina þegar í byrjun hvernig eigi að afmarka og mæla markmiðið. Algeng mistök eru að fyrirtæki skilgreini að það ætli að minnka orkunotkun um X% á ákveðnu tímabili. Sé haldið áfram með dæmið um 5% minnkun eldsneytis á 2 ára tímabili, vaknar spurninginn hvort markmiðin eigi einungis að ná yfir bíla fyrirtækisins eða einnig bíla starfsmanna sem notaðir eru í þágu vinnuveitenda. Þetta þarf að skilgreina áður en markmið eru sett. Það er einnig hægt að mæla hluti á mismunandi máta og það verður að liggja ljóst fyrir þegar í byrjun hvernig á að mæla markmiðið. Séu reglurnar óljósar í byrjun verða reglurnar alltaf óljósar.

Eru raunsæ: Markmið verða að vera raunsæ. Ekki er nokkuð vit í að setja markmið sem þegar er búið að ná eða sem ljóst er að ekki er hægt að ná. Þessi markmið þjóna aldrei hlutverki sínu að vera mælikvarði á starfsemi fyrirtækisins. Þvert á móti sýna þau einungis að fyrirtækið vinnur ekki heils hugar að umhverfismálum.

Taka tillit til ytri áhrif og breytingar í atvinnurekstri: Markmið eiga alltaf að vera sett þannig að það er starfsfólkið sjálft sem nær markmiðunum með athöfnum og gerðum sínum en ekki vegna hagstæðra ytri breyta. Ef markmið er til dæmis að minnka orkunotkun um 5% en samtímis minnkar framleiðslan um 20% þá er ljóst að markmiðið náðist vegna (ó)hagstæðra ytri aðstæðna. Salan minnkaði um 20% og þá er eðlilegt að markmiðið taki tillit til þess. Markmið eru því oft sett í samhengi við aðrar stærðir eins og veltu, sölutölur akstur bifreiða, fjölda starfsmanna osfrv. Frá þessu eru þó nokkur frávik og eru til dæmis fyrirtæki að setja sér markmið um minnkun koltvísýringsmengunar frá bílum óháð akstri eða veltutölum. Fyrirtæki eru ekki endilega að minnka orkunotkun sína heldur eru að skipta yfir í endurnýjanlega orkugjafa.

Skítur inn og út

Í gamansömum tón má segja að setning umhverfismarkmiða miðist við að mæla “skít inn og skít út”. Með því er átt að með því að mæla það sem við kaupum og hvað við látum frá okkur metum við sóun í fyrirtækinu. Því meiri sóun því meiri umhverfisspjöll og tengist það yfirleitt fjárhagslegum gildum einnig. Umhverfisviðmiðin fjalla yfirleitt um að gera meira úr minna sem einnig má kalla umhverfishagræði.

Flæði inn

Með flæði inn er til dæmis átt við eftirfarandi atriði:

 • Hráefnakaup og hráefnanýtingu í fullunninni vöru
 • Vatnsnotkun
 • Hitavatnsnotkun
 • Rafmagnsnotkun
 • Eldsneytisnotkun
 • Orkunotkun (eldsneyti, rafmagn og hitavatn slegið saman)
 • Efnanotkun
 • Pappírsnotkun
 • Innkaupakostnaður annarra vara í hlutfalli af veltu (gert ráð fyrir að hvorutveggja taki breytingum með verðbólgu)

Dæmi um umhverfismarkmið eru:

 • Hitavatnsnotkun á starfsmann eða á fermetra húsnæðis
 • Rafmagnsnotkun á starfsmann, fermetra húsnæðis, framleiddar einingar eða veltu
 • Eldsneytisnotkun á hvern ekinn kílómeter eða sem hlutfall af veltu
 • Pappírsnotkun í heild, sem hlutfall af veltu eða fjölda stöðugilda
 • Innkaupakostnaður sem hlutfall af heildarveltu.
 • Hlutfall umhverfismerktra vara af heildarinnkaupum
 • Ákveðið hlutfall farartækja eiga að eyða undir 7 dm3 á hundrað km
 • Efnanotkun á fermetra við hreingerningar að teknu tilliti til gólfbóns

Flæði út

Flæði út skiptist yfirleitt í mengun vatns eða sjávar, mengun andrúmslofts og úrgang. Hér getur verið um að ræða útblástur koltvísýrings í andrúmsloftið, svifryksmengun, brennisteinsmengun eða annan útblástur sem hægt er að rekja til starfseminnar. Algengast er að fyrirtæki meti hjá sér úrgang af þeirri einföldu ástæðu að það er yfirleitt auðvelt að meta þó það sé ekki það sé ekki alltaf mikilvægast.
Það er að verða algengara að fyrirtæki meti frekar koltvísýringsmengun en orkunotkun þar sem að endurnýjanlegir orkugjafar eins og metan og vetni, eru að verða aðgengilegri. Erlendis eru einnig ýmsir aðrir orkugjafar að verða meira áberandi eins og etanól, lífdísill, eldsneyti úr skógarafurðum, vindmillur osfrv. Svifryksmengun er hægt að hafa áhrif á með kaupum á réttum farartækjum og dekkjum. Úrgang er hægt að hafa áhrif á með flokkun en ekki síður með því að kaupa rétt inn þegar frá byrjun. Að kaupa inn rusl er ávísun á framtíðar förgun.

Dæmi um umhverfismarkmið um flæði út:

 • Útblástur koltvísýrings á hvern ekin km eða í hlutfalli af veltu.
 • Fjöldi metanbíla eða bifreiða á endurnýjanlegum orkugjöfum
 • Hlutfall úrgangs af heildarinnkaupum
 • Hlutfall óflokkaðs úrgangs
 • Hlutfall bifreiða með nagladekk eða á dekkjum sem eru án HA olía í slitfleti

Önnur markmið

Önnur markmið sem fyrirtæki setja sér tengjast of annarri starfsemi fyrirtækisins sem fyrirtæki geta haft áhrif á án þess að það snerti beint framleiðslu fyrirtækisins. Þessi markmið miðast oftast við að skapa aukna umhverfisvitund hjá starfmönnum fyrirtækisins eða forsendur fyrir starfsmenn til að vera umhverfisvænir. Hér er vert að taka fram að fyrirtækin oft skapa forsendur fyrir starfsmennina að vera umhverfisvænir í frítíma sínum. Þetta er meðal annars gert með að fyrirtækin setja á laggirnar verkefni sem starfsmenn síðan geta unnið að utan vinnutíma. Fyrirtæki geta meðal annars leyft starfsmönnum að sinna einu verkefni í einn vinnudag á ári sem er tengt gildum fyrirtækisins.

Dæmi um svona markmið eru:

 • Fjöldi starfsmanna sem hafa hlotið grunn umhverfismenntun eða kynningu
 • Fjöldi starfsmanna sem nýta sér almenningssamgöngur eða aka saman til vinnu (fyrirtæki geta t.d. styrkt starfsmenn með því að gefa græna kortið í Strætó)
 • Fjöldi starfsmanna sem flokka úrgang heima (eða eru með endurvinnslutunnu)
 • Fjöldi starfsmanna sem taka þátt í umhverfistengdum verkefnum sem vinnustaðurinn/vinnuveitandi styður.

Lokaorð

Hér að ofan hafa verið talin upp helstu atriði sem þarf að hugsa um þegar fyrirtæki setja sér markmið almennt og síðan talin upp hugsanleg umhverfismarkmið fyrir fyrirtæki. Markmiðin geta verið mjög mismunandi milli fyrirtækja og fer það allt eftir starfsemi fyrirtækisins. Þjónustufyrirtæki setja oft markmið tengt úrgangsmálum, starfsmönnum og eldsneytisnotkun meðan framleiðslufyrirtæki horfa meira á hráefni og orkunotkun. Það er sama um hvernig fyrirtæki er að ræða, allir geta sett sér markmið. Fyrsta skrefið að meta grunnstöðuna er mikilvægast. Þar kemur yfirleitt ýmislegt óvænt í ljós. Að setja sér umhverfismarkmið er ferill sem tekur nokkur ár. Fyrstu markmiðin er auðvelt að setja að því leiti að úr nægu er að velja. Samtímis eru þau erfið þar sem að oft vantar grunnstöðuna og það er lærdómsferill að finna og taka saman upplýsingar þannig að þær endurspegli markmiðin. Þessi lærdómsferill getur verið allt milli 12 og 36 mánuðir.

Sjá þau fyrirtæki sem hafa fullnaðarvottun ISO 14001 hér á Græna kortinu.

Grafík: Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir ©Náttúran.is

Birt:
18. júlí 2013
Höfundur:
Finnur Sveinsson
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Finnur Sveinsson „Umhverfisviðmið fyrir fyrirtæki“, Náttúran.is: 18. júlí 2013 URL: http://static.natturan.is/d/2007/04/11/umhverfisvidmidfyrirfyrirtaeki/ [Skoðað:15. desember 2018]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 14. júní 2014

Skilaboð: